Seðlabanki Bandaríkjanna mun tilkynna um vaxtaákvörðun sína á morgun líkt og íslenski seðlabankinn. Búist er við að vextir í Bandaríkjunum verði óbreyttir í 0-0,25% eins og þeir hafa verið síðan í desember 2008.

Í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka segir að vestanhafs standi væntingar markaðsaðila til þess að vextir muni haldast óbreyttir næstu misserin enda láti efnahagsbatinn á sér standa og ljóst þykir að ekki verði farið út í neinar vaxtahækkanir í bráð.

Auka peningamagn í umferð

„Vangaveltur í kringum vaxtaákvörðunina snúa því ekki að vaxtastiginu heldur að því hvort Ben Bernanke seðlabankastjóri muni tilkynna um frekari a aðgerðir til að auka peningamagn í umferð. Væntingar markaðsaðila eru samkvæmt nýlegri könnun Reuters fréttaveitunnar á þá leið að Seðlabankinn muni kaupa ríkisskuldabréf og aðrar eignir fyrir á milli 80 og 100 milljarða Bandaríkjadala í hverjum mánuði næstu misserin. Þetta verður það sem markaðsaðilar og aðrir munu fyrst og fremst hlusta eftir á vaxtaákvörðunarfundi bankans á morgun,“ segir í Morgunkorni.

Vaxtaákvörðun í Evrópu á fimmtudag

Evrópski Seðlabankinn mun síðan tilkynna um vaxtaákvörðun sína næstkomandi fimmtudag. Þar er líkt og í Bandaríkjunum ekki búist við breytingum. Undanfarna 18 mánuði hafa stýrivextir Seðlabanka Evrópu verið 1%.

„Seðlabankastjórinn, Jean-Claude Trichet hefur látið í það skína að hann vilji sjá skýr merki um að Evrusvæðið sé komið yfir kreppuna áður en vextir yrðu hækkaðir á nýjan leik. Samantektarspá Reuters gerir þannig að meðaltali ráð fyrir óbreyttum vöxtum á evrusvæði fram á síðasta fjórðung næsta árs. Vextir munu því líklega verða óbreyttir enn um sinn í stóru hagkerfunum í kringum okkur en það sama er þó ekki segja um aðra nágranna okkar.

Noregur og Svíþjóð hafa t.d. bæði hafið vaxtahækkunarferli.  Það sama er að segja um mörg nýmarkaðsríki enda hefur efnahagsbatinn verið mun fyrr á ferðinni í þessum ríkjum. Síðast slóst Kína í hópinn, en Alþýðubankinn í Kína hækkaði nýlega vexti sína um 0,25 prósentustig til að stemma stigu við auknum verðbólguþrýstingi og hóf þar með vaxtahækkunarferil sinn.

Önnur lönd sem hafa hafið vaxtahækkunarferli eru m.a. Nýja Sjáland og Ástralía. Það síðarnefnda hækkaði vexti sína um 0,25 prósentustig í morgun og kom sú ákvörðun mörkuðum talsvert á óvart en búist var við óbreyttum vöxtum. Stýrivextir í Ástralíu standa nú í 4,75% og hafa ekki verið hærri í tvö ár.

Seðlabanki Indlands hækkaði einnig vexti sína í morgun um 0,25 prósentustig og var það í takti við væntingar. Þetta er í sjötta sinn sem seðlabankinn hefur hækkað vexti á þessu ári og standa vextir bankans nú í 6,25%.“