Búast má við að á annað hundrað manns; fulltrúar frá dönskum fyrirtækjum, bönkum og fréttamenn mæti á fund um stöðu íslenskra efnahagsmála í Kaupmannahöfn í dag, að sögn Rósu Viðarsdóttur, viðskiptafulltrúa hjá íslenska sendiráðinu í Kaupmannahöfn.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er meðal fyrirlesara. Að fundinum standa: Viðskiptaráð Íslands, sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn og danskíslenska viðskiptaráðið. Rósa segir að tilgangur fundarins sé að upplýsa Dani um íslenskt efnahagslíf. „Fundurinn er opinn og viljum við með honum sýna að við viljum gjarnan ræða málin,“ segir hún.

Rósa tekur fram að mikið sé fjallað um íslenskt efnahagslíf í dönskum fjölmiðlum og segir aðspurð að þau skrif séu mjög neikvæð. Þar hafi auk þess komið fram að Dönum finnist Íslendingar ekki veita nógu miklar upplýsingar um þessi mál. Með fundinum í dag sé ætlunin að bæta úr því.

Auk Ingibjargar Sólrúnar flytja erindi þau Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, Richard Portes, prófessor við London School of Economics, og Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandi. Fundurinn fer fram á SAS-hótelinu á Amager.

Hittir Danadrottningu og utanríkisráðherra Dana

Ingibjörg Sólrún mun aukinheldur í heimsókn sinni til kaupmannahafnar hitta Margréti Þórhildi Danadrottningu og Per Stig Møller, utanríkisráðherra Dana. Á meðal þeirra mála sem þau munu ræða eru málefni Norður-Íshafsins, Afganistan, Mið-Austurlanda og loftslagsmál, Evrópumál og framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Þá fundar Ingibjörg Sólrún með utanríkismálanefnd danska þingsins, Helle Thorning-Schmidt, formanni danskra jafnaðarmanna og Bertil Haarder, menntamálaráðherra.