Hópur fjárfesta, sem leiddur er af Baugi, reiknar með að gera formlegt kauptilboð í bresku stórvöruverslunina House of Fraser í dag, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Baugur gerði óformlegt kauptilboð í keðjuna fyrr á þessu ári að virði 148 pens á hlut, sem samsvarar 46 milljörðum króna, og hefur nú lokið áreiðanleikakönnun. Ekki er búist við því að breytingar verði gerðar á tilboðinu þar sem ekkert óvænt kom fram í áreiðanleikakönnuninni.

Fjárfestahópurinn inniheldur, auk Baugs, FL Group, skoska auðkýfinginn Sir Tom Hunter, bresku kaupsýslumennina Don McCarthy og Kevin Stanford og Bank of Scotland.

Bank of Scotland og Glitnir hafa sölutryggt lánsfjármögnun til að styðja við kaupin og ráðgjöf veita Glitnir og fjárfestingabankinn Rothschild.