Samkvæmt skoðanakönnunum mun Réttlætis- og þróunarflokkurinn (AKP), flokkur Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, verða sigurvegari þingkosninganna á sunnudaginn, en hins vegar gefa þær til kynna að sigurinn verði ekki jafn afgerandi og forystumenn AKP höfðu vonast eftir. Þegar litið er til sex skoðanakannana sem gerðar hafa verið undanfarnar þrjár vikur má gera ráð fyrir því að AKP-flokkurinn muni hljóta á bilinu 35% til 44% atkvæða, en í síðustu þingkosningum sem fram fóru árið 2002 fékk flokkurinn 34% fylgi. Þrátt fyrir væntanlega fylgisaukningu telja stjórmálaskýrendur að ólíklegt sé að úrslit kosninganna verði á þá leið að AKP takist að tryggja sér tvo þriðju hluta þeirra 550 fulltrúa sem sæti eiga á tyrkneska þinginu, sökum þess að búist er við því að fleiri stjórnmálaflokkum en áður takist að rjúfa 10% múrinn sem er forsenda fyrir því að fá mann kjörinn inn á þing. Í dag hefur AKP 353 fulltrúa á þingi en til þess að geta breytt stjórnarskrá landsins er nauðsynlegt að hafa stuðning tvo þriðju hluta þingmanna.

Niðurstaða að skapi viðskiptalífsins?
Kosningarnar hafa af mörgum stjórnmálaskýrendum verið taldar einar þær mikilvægustu í nútímasögu Tyrklands. AKP-flokkurinn tók þá ákvörðun í lok apríl að flýta fyrirhuguðum þingkosningum sem áttu að fara fram í nóvember í kjölfar þeirra deilna sem sprottið höfðu upp vegna ákvörðunar Erdogan að útnefnda Abdullah Gul, núverandi utanríkisráðherra, sem forsetaframbjóðenda AKP. Þrátt fyrir þá ákvörðun - að tilnefna Gul fremur en Erdogan sjálfan - hafi verið hugsuð sem málamiðlun af hálfu AKP fékk hún ekki þær viðtökur sem flokkurinn hafði vonast eftir. Enda þótt andstæðingar AKP hafi kunnað ívið betur við Gul heldur en Erdogan tortryggðu þeir hann engu að síður sökum þess að þeir deila með sér sömu hugmyndafræði í stjórnmálum - að mati andstæðinga þeirra - um að breyta hinu veraldlega þjóðskipulagi Tyrklands, sem komið var á fót árið 1923.

Ef niðurstaða kosninganna verður á þá leið sem skoðanakannanir gefa til kynna er ljóst að slík úrslit myndu hugnast viðskiptalífinu sem óttast að of stór meirihluti AKP-flokksins gæti orðið til þess að endurvekja þá spennu sem ríkti fyrr á þessu ári á milli AKP og hinna veraldlegu afla í stjórnmálalífi landsins, þar á meðal tyrkneska hersins. Fjárfestar telja AKP líklegastan allra flokka til að fylgja stefnu sem er hliðholl viðskiptalífinu og halda áfram að vinna að aðildarviðræðum við Evrópusambandið (ESB) sem hófust formlega fyrir tveimur árum. Stjórnmálaskýrendur segja hins vegar að lítið sem ekkert hafi verið rætt um málefni Evrópusambandsins í aðdraganda kosninganna, sem endurspeglar þá staðreynd að stuðningur almennings við aðild Tyrklands að ESB hefur aldrei mælst minni í skoðanakönnunum.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.