Strætó bs. verður gestgjafi  stórrar ráðstefnu norrænna almenningssamgöngufyrirtækja sem haldin verður  dagana 9.-11. júní nk. á Hilton Reykjavík Nordica. Von er á hundruðum gesta hingað til lands í tengslum við ráðstefnuna. Rætt verður um strauma og stefnur í almenningssamgöngum frá pólitískum sjónarhóli. Þá verða rekstrarleg viðfangsefni eins og markaðsmál, útboðsmál, þjónustuviðmót og upplýsingagjöf til viðskiptavina ofarlega á baugi segir í tilkynningu.

Hér er í raun um að ræða tvær ráðstefnur sem slegið er saman í eina. Á ráðstefnunni Nordisk lokaltrafik sem haldin er annað hvert ár, til skiptis á Norðurlöndunum fimm, er fjallað um almenningssamgöngur í nútíð og framtíð. Þátttakendur á ráðstefnunni koma víða að, þar eru m.a. stjórnendur og starfsmenn almenningssamgöngufyrirtækja á Norðurlöndunum, akstursaðilar, pólitískt kjörnir fulltrúar sveitarfélaga og eftirlitsaðilar með þjónustunni. Á hinni ráðstefnunni, InformNorden, sem haldin er árlega, er fjallað um notkun og hagnýtingu upplýsingatækni í almenningssamgöngum.   Að sögn Harðar Gíslasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Strætó bs., er mjög gagnlegt fyrir Strætó bs. að taka þátt í þessu samstarfi við skyld fyrirtæki á öðrum Norðurlöndum. „Það er almennt viðurkennt að almenningssamgöngur á Norðurlöndum eru með þeim bestu sem gerist í heiminum – og því er það fengur fyrir okkur að fá þennan góða hóp hingað til skrafs og ráðagerða. Hingað koma ennfremur fræðimenn og ráðgjafar sem greina frá nýjustu rannsóknum á þessu sviði,“ segir  Hörður í tilkynningu.

Sýning líka

Samhliða ráðstefnunni verður haldin sýning á búnaði sem tengist almenningssamgöngum. Stærstu framleiðendur upplýsingakerfa og annars búnaðar sem þarf til þjónustunnar koma og kynna búnað sinn og þjónustu. Þannig er t.d. ráðgert að Brimborg flytji inn umhverfisvænan tvinn-strætó frá Volvo sérstaklega af þessu tilefni. Vagninn er hefðbundinn díselknúinn vagn en framleiðir rafmagn úr þeirri orku er leysist út læðingi við hemlun hans og nýtir þá orku til að knýja hann áfram úr kyrrstöðu, eða þegar mengun úr hefðbundnum sprengihreyfli myndi menga hvað mest.