Ef veður verður hagstætt um áramótin má búast við að enn eitt metið verði slegið í flugeldaskothríð hér á landi. Líklegt er talið að Íslendingar skjóti upp og sprengi flugelda fyrir hátt í 1,5 milljarða króna í ár.

Yrði það umtalsvert meira en skothríðin kostaði landsmenn í fyrra sem þó er talið metár hér á landi. Þá voru flutt inn 638 tonn af flugeldum og blysum sem öllum var puðrað upp í loftið auk eldri birgða sem seldust upp. Voru því allir lagerar tómir og óvenju mikið flutt inn að þessu sinni. Samkvæmt athugun Viðskiptablaðsins verður yfir 50% aukning á innflutningi á milli ára. Má gera ráð fyrir að heildarinnflutningurinn nemi því nærri 1.000 tonnum.

Frekar ólíklegt er talið að öllum þessum þúsund tonnum verði skotið upp um áramótin, en samkvæmt áætlun helstu söluaðila má samt búast við 10% aukningu frá metárinu í fyrra, ef óskir rætast um gott veður.

Vel yfir 90% sölunnar er til styrktar björgunarsveitum, íþróttafélögum og líknarfélögum, en einkaaðilar eru þó að sækja í sig veðrið í þessum viðskiptum við litla hrifningu björgunarsveitarmanna og forsvarsmanna íþróttafélaganna.

"Ég er því ekkert sérlega sáttur við að einkaaðilar skuli vera að auka við sinn hlut á þessu sviði. Þetta eru aðilar sem eru að öllu jöfnu í öðrum viðskiptum og maður hefði viljað sjá að atvinnulífið léti þetta eiga sig," sagði Jón Gunnarsson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.