Nordea Bank spáir því í dag að Seðlabanki Íslands hækki stýrivexti um 50 punkta á fimmtudag, en þá er tilkynnt um vaxtaákvörðun Seðlabankans. Fari svo verða stýrivextir hér á landi 15,5%. Frá þessu er greint á fréttaveitu Dow Jones.

Þetta er í takt við spár íslensku bankanna en greiningadeildir bæði Glitnis og Landsbankans hafa spáð hækkun stýrivaxta upp í 15,5% á fimmtudaginn. Greiningadeild Kaupþings býst hins vegar ekki við frekari hækkun.

Greiningardeild Kaupþings telur að snögg veiking krónunnar og meðfylgjandi verðbólguskot muni fresta vaxtalækkunarferli Seðlabankans fram á haust, en muni ekki leiða til frekari vaxtahækkana, enda sé vandamál krónunnar ekki það að vaxtamunur sé ekki til staðar.

Hér má sjá nánar um stýrivaxtaspár greiningadeildanna.