Búist er við að hækkandi olíuverð leiði til þess að tap verði af rekstri breska lággjaldaflugfélagins easyJet, segir í frétt breska blaðsins The Sunday Telegraph.

Blaðið segir að olíukostnaður easyJet hafi hækkað um 55 milljónir punda (7,5 milljarðar króna) á fyrsta helmingi rekstrarársins og reiknar með að um 50 milljón punda tap verði af rekstrinum.

EasyJet hefur ekki hækkað flugfargjöld þrátt fyrir hækkandi olíuverð

Gengi hlutabréfa fyrirtækisins hefur fallið úr 380 pens á hlut í mars í 317 pens á hlut, sem var lokagengi bréfanna á föstudaginn.

FL Group seldi 16,9% hlut sinn í easyJet í byrjun apríl og nam söluhagnaðurinn um 12 milljörðum króna. Síðan þá hefur gengi hlutabréfa félagsins gefið eftir, en sérfræðingar benda á að yfirtökuvæntingar hafi haldið uppi genginu.