Búist er við uppsögn forstjóra Citigroup, Charles Prince, á stjórnarfundi sem haldinn verður á morgun, sunnudag. Charles Prince hefur starfað sem forstjóri í fjögur ár.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá í vikunni hefur Citigroup bankinn tapað miklu fjármagni vegna lausafjárkrísu sem myndast hefur á fjármálamörkuðum eftir erfiðleikana á bandarískum undirmálslánamarkaði. Segi Prince af sér verður hann ekki fyrsti stjórnandi í stórum bandarískum banka sem víkur vegna mikils taps að undanförnu, því að fyrr í vikunni sagði forstjóri Merrill Lynch bankans, Stan O’Neal, upp starfi sínu af svipuðum ástæðum.

Gengi bréfa í Citigroup hefur lækkað um 31% á árinu og tæplega 9% aðeins í þessari viku. Fjármálasérfræðingar vestanhafs búast við því að Citigroup tilkynni um frekara tap á mánudag, að því er fram kemur í frétt WSJ.

Viðskiptablaðið mun fylgjast með gangi mála um helgina.