Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi eykst, en samt fækkar atvinnulausum samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar. Kristrún Tinna Gunnarsdóttir hjá hagfræðideild Landsbankans segir að þó atvinnulausum sem frá greiddar atvinnuleysisbætur fækki í fyrirliggjandi tölum, þá sé viðbúið að atvinnuleysi aukist með haustinu en það liggur fyrir að þá komi til framkvæmda hópuppsagnir sem þegar hefur verið tilkynnt um. Sömuleiðis er þónokkur árstíðasveifla í atvinnuleysi t.d. í verktakageiranum þar sem ýmis tímabundin verk séu unnin yfir sumartímann og því fleiri starfsmenn í vinnu á sumarmánuðum. „Það gæti því orðið mun ýktari sveifla nú en í venjulegu árferði.”

Á tímabilinu september og fram í nóvember koma inn í greiðslur atvinnuleysisbóta fólk úr sex hópuppsögnum sem tilkynnt var um í júlí með samtals 110 manns. Þar komu 28% uppsagnanna úr byggingariðnaðinum. Þar fyrir utan er fjöldi uppsagna sem ekki teljast til hópuppsagna.

Allar hópuppsagnirnar fyrir utan eina komu frá fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu, en ástæður uppsagnanna eru fyrst og fremst fyrirsjáanlegur samdráttur á markaði, verkefnaskortur, rekstrarerfiðleikar og endurskipulagning.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er nú mikill uggur meðal verktaka í landinu þar sem ljóst er að margar viðamiklar framkvæmdir sem menn bundu vonir um í vegagerð og hjá sveitarfélögum koma ekki til útboðs vegna erfiðleika við fjármögnun. Það þýðir að stór hluti verktakafyrirtækja sem enn eru starfandi munu verða verkefnalaus þegar kemur fram á haust og vetur. Flest þessara fyrirtækja hafa ekki bolmagn til að halda sínum starfsmönnum á launum í langan tíma án verkefna. Því gera menn ráð fyrir að mun fleiri uppsagnir séu framundan en margir hafa viljað vera láta í pólitískri umræðu. Þá telja menn næsta öruggt að hjá fjölmörgum verktakafyrirtækjum blasi ekkert við nema gjaldþrot.

Skráð atvinnuleysi í júlí var 8,0% og dróst það saman um 0,1 prósentustig frá því í júní. Að meðaltali voru því 13.756 manns á atvinnuleysisskrá í mánuðinum. Á sama tíma í fyrra var atvinnuleysið aðeins 1,1%. Þrátt fyrir að skráð atvinnuleysi sé að dragast saman þá er árstíðaleiðrétt atvinnuleysi heldur að aukast, en það var 8,6% í lok júlí og jókst um 0,4 prósentustig frá fyrri mánuði. Þetta kemur fram í skýrslu Vinnumálastofnunar um stöðu á vinnumarkaði í júlí.

Mest er atvinnuleysið á Suðurnesjum (11,7%) en minnst á Vestfjörðum (1,3%). Heldur dregur nú úr mun á atvinnuleysi eftir kyni, en atvinnuleysi meðal karla dróst saman um 0,4 prósentustig í 8,2% en atvinnuleysi kvenna jókst um 0,2 prósentustig, í 7,6%. Í skýrslunni kemur fram að atvinnuástandið batni yfirleitt á milli júlí og ágúst meðal annars vegna árstíðasveiflu og telur stofnunin að atvinnuleysið muni verða á bilinu 7,6-8,1% í þessum mánuði en erfitt sé að áætla það um þessar mundir sökum mikillar óvissu í efnahagslífinu.