*

laugardagur, 31. október 2020
Innlent 29. nóvember 2019 09:22

Búast enn við 737 Max í mars

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair. Heildarsætaframboð dregst saman um 4,8% miðað við árið í ár.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Icelandair býst nú við því að Boeing 737 Max vélarnar verði tilbúnar í loftið í mars á næsta ári eða um ári eftir að þær voru kyrrsettar í kjölfar tveggja flugslysa. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu þar sem flugáætlun næsta árs er kynnt. Heildarsætaframboð dregst saman um 4,8% miðað við árið í ár.

Á næsta ári er áætlað að flogið verði til 40 áfangastaða, það er að einn nýr áfangastaður bætist í flóruna á næsta ári. Heildarsætaframboð verður 5,1 milljón sæta og gera áætlanir ráð fyrir því að 4,2 milljónir farþega muni takast á loft með félaginu.

„Á árinu 2020 mun Icelandair halda áfram að leggja megináherslu á fjölgun farþega á mörkuðunum til og frá Íslandi. Á þessu ári hefur félagið flutt fleiri farþega til Íslands en nokkurn tíma áður, eða yfir 1,6 milljón farþega á fyrstu 10 mánuðum ársins sem er aukning um 26% milli ára,“ segir í tilkynningunni.

Gert er ráð fyrir því að aukning verði á tíðni á flugi til Evrópu um 2%. Flogið verður oftar til Kaupmannahafnar, Helsinki, Berlínar, Madríd og Mílanó en sjaldnar til Parísar, Frankfurt og Hamborgar. Sætaframboð til Norður-Ameríku mun hins vegar dragast saman um 11% sem skýrist aðallega af fækkun áfangastaða en einnig minni tíðni fluga.