Flest bendir til þess að þrettán erlend flugfélög muni fljúga til landsins í sumar og þar með verður ferðasumarið það annamesta frá upphafi á Keflavíkurflugvelli. Þá hafa íslensk flugfélög bætt við vélaflota sinn og aldrei hafa jafnmargar flugvélar verið í áætlunarflugi frá landinu á vegum íslenskra félaga. Frá þessu greinir Morgunblaðið og vísar í upplýsingar frá Isavia.

Mun það að mati Isavia vera sú athygli sem Eyjafjallajökull vakti á Íslandi í fyrra sem á stærstan þátt í þessari aukningu en hluti af skýringunni gæti einnig verið órói í löndum sunnan Miðjarðarhafs að undanförnu; ferðamenn í leit að öðruvísi ferðum kjósi einfaldlega Ísland í staðinn.

Gert er ráð fyrir að í sumar verði afgreidd um 18-20 flug samtímis á háannatíma á morgni og síðla dags flesta daga en í fyrra voru þau 14-15. Þá er áætlað að meðalaukning farþega á álagstíma gæti orðið 500-700 manns á milli ára. Vegna þess verður ráðist í endurbætur á Flugstöð Leifs Eiríkssonar til þess að auka þægindi fyrir farþega að sögn Morgunblaðsins.