Frekari hömlur losna á sölu hlutabréfa í samfélagsmiðlinum Facebook í næsta mánuði. Þetta á við um einn milljarð hlutabréfa og geta m.a. starfsmenn fyrirtækisins þá selt af hlutafjáreign sinni í fyrirtækinu.

Í netútgáfu bandaríska tímaritsins Forbes segir að salan gæti sett þrýsting á gengi hlutabréfa Facebook sem hafi lækkað mikið síðan þau voru skráð á hlutabréfamarkað í maí. Gengi bréfanna á fyrsta degi stóð í 38 dölum á hlut og hækkaði það lítillega í fyrstu. Gengið fór lægst í 17,55 dali á hlut en hefur jafnað sig að nokkru leyti og stóð í síðustu viku í rúmum 23 dölum á hlut. Sala á hlutabréfum þeirra sem fjárfestu í Facebook á upphafsdögum fyrirtækisins þrýsti verðinu niður fyrir skemmstu. Facebook kom til móts við seljendum með kaupum á bréfunum til að koma í veg fyrir meiri lækkun á þeim, að sögn Forbes.

Óvíst er hvort það takist enda segir í nýlegri spá netmiðilsins Barron's, að verðlagning á bréfum Facebook hafi verið alltof rausnarleg í fyrstu. Í stað 38 dala á hlut eigi verðið að vera helmingi lægra eða nær 15 dölum á hlut. Af þeim sökum er ekki mælt með kaupum á hlutabréfum í félaginu.

Gengi bréfa Facebook féll aftur í dag, í þetta sinn um rúm 10% og er það nú í rétt rúmum 20 dölum á hlut. Það jafngildir rúmlega 47% gengishruni frá því bréfin fóru á markað fyrir ekki hálfu ári.