Æ fleiri Svíar versla á netinu og í ár er búist við því að þriðji hver Svíi muni kaupa jólagjafirnar í gegnum netið. Frá þessu greinir di.se og vitnar í e-barometern. Að meðaltali er reiknað með að hver og einn muni versla fyrir 2.143 sænskar krónur eða um 37 þúsund krónur.

Að sögn di.se reiknar meira en helmingur netverslana með því að veltan muni aukast miðað við það sem var í fyrra og stafar það m.a. af því að aðfangadag ber í ár upp á laugardegi. Fyrirtækin hafa því heila vinnuviku fyrir jól til þess að senda vörurnar. Eins og venjulega eru það yfirleitt harðir pakkar sem reiknað er með að fólk kaupi; bækur, tón- og mynddiskar og leikföng.

Um 36% þeirra neytenda sem spurðir voru segjast munu versla á netinu fyrir jólin. Heildarvelta í netverslun á árinu í Svíþjóð er áætluð um 27,5 milljarðar sænskra króna, 481,5 milljarðar íslenskra króna.