Málflutningur í Icesave-málinu fór fram í húsakynnum Verslunarráðsins í Luxemborg í dag. Svo margir voru málaflutningsmenn og áheyrendur að dómssalurinn sem málið átti að fara fram í rúmaði ekki fjöldann. Málflutningi er lokið og búist við að dómur í Icesave-málinu liggi fyrir innan 2-3 mánaða.

Í lýsingu utanríkisráðuneytisins af málflutningnum segir að fyrst funduðu lögmenn með dómurum málsins og síðan fluttu þeir mál sitt munnlega hver á fætur öðrum. Lögmenn Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins riðu á vaðið og tefldu fram röksemdum fyrir því að Ísland hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt tilskipun um innstæðutryggingar og brotið gegn jafnræðisreglum þegar innstæður í íslenskum útibúum gömlu bankanna voru fluttar yfir í nýju bankana. Jafnframt var vísað til allsherjaryfirlýsinga ríkisstjórnar og ráðherra um ábyrgð á innstæðum.

Eftir það tók Tim Ward, málflutningsmaður Íslands, til máls.

Í lýsingunni segir að hann andmælti harðlega öllum röksemdum og kröfum um brot Íslands. Ítarlega var farið yfir tilurð tilskipunarinnar og sýnt fram á að innstæðutryggingakerfið rís ekki undir stórfelldu bankaáfalli, hvorki á Íslandi né annars staðar. Fjarstæðukennt hafi verið að sjóðirnir hafi yfir fjármunum að ráða sem dugi til að greiða út meirihluta innstæðna í viðkomandi landi. Í slíkum tilvikum grípi stjórnvöld ævinlega til annarra aðgerða, t.d. með því að endurskipuleggja bankakerfið. Íslensk stjórnvöld hafi gripið til þeirra aðgerða sem tækar voru og nauðsynlegar til að koma í veg fyrir heildarhrun á Íslandi. Jafnframt hafi hagur innstæðueigenda í erlendum útibúum bankanna verið tryggður með því að þeim var veittur forgangsréttur við slit og skiptameðferð gömlu bankanna.

Þá mótmælti Tim ásökunum um brot gegn jafnræðisreglu. Grundvallaratriði væri að enginn hefði fengið greitt úr íslenska innstæðutryggingakerfinu og því væri alls ekki um að ræða mismunun innan þess. ESA hefði að öðru leyti ekki útskýrt í hverju meint mismununarbrot hefði falist og að í öllu falli væru réttlætingaraðstæður til staðar í skilningi dómaframkvæmdar á sviði Evrópuréttar.

Málflutningsmenn Noregs og Liechtenstein studdu málsstað Íslands varðandi innstæðutilskipunina en Hollendingar og Bretar voru á öndverðum meiði.