Samningafundur í kjaradeilu Bandalags háskólamanna (BHM) við ríkið hefst klukkan þrjú í dag. Búist er við að samninganefnd ríkisins leggi fram nýja tillögur. Það gerði nefndin reyndar líka í síðustu viku og þá virtust viðræðurnar vera að komast á rekspöl og greina mátti örlítinn bjartsýnistón hjá viðsemjendum. Það breyttist hins vegar á mánudaginn eftir fund sem Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM, sagði að hefði verið „með öllu árangurslaus". Fundurinn á eftir er sem sagt sá fyrsti síðan á mánudaginn.

Eftir að deilan komst í hnút fyrr í vikunni sagði Páll að mikil óvissa ríkti.

„Ég þekki það aftur á móti af gamalli reynslu að hlutirnir geta breyst mjög hratt en það er ekkert núna sem gefur sérstaka ástæðu til að ætla að svo verði," segir hann.

Verkfallsaðgerðir félagsmanna BHM nú staðið í tæpar sjö vikur. Að óbreyttu fer enn einn hópurinn hjá BHM í verkfall þann 2. júní, en það eru háskólamenntaðir starfsmenn Stjórnarráðsins og Fjársýslu ríkisins. Nú í hádeginu stendur yfir fundur félagsmanna BHM í Rúgbrauðsgerðinni.

Samninganefnd ríkisins hefur í nógu að snúast þessa dagana því að óbreyttu hefst verkfall Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga eftir fimm daga.