Atvinnuleysið breytist oftast lítið á milli febrúar og mars. Fyrir mánuði síðan reiknaði Vinnumálastofnun með að svo yrði raunin nú og áætlaði að atvinnuleysi kæmi til með að verða á bilinu 8,5%-8,8% í mars. Atvinnuleysi mældist 8,6% í febrúar og jókst um 0,1 prósentustig frá fyrri mánuði.

Vinnumálastofnun mun birta tölur um atvinnuleysi í mars um hádegisbil á morgun. Greining Íslandsbanka fjallar um málið í dag og segir að tölurnar um atvinnuleysi séu meðal fjölda mikilvægra hagvísa sem birtast í vikunni. Atvinnuleysi í febrúar reyndist við neðri mörk þess sem reiknað var með, að sögn greiningar Íslandsbanka.

Meðal annarra hagvísa sem birtast í vikunni eru tölur Rannsóknarseturs verslunarinnar um smávöruverslun í mars. Þær þykja gefa vísbendingar um þróun einkaneyslu. Þá birtir Hagstofa Evrópusambandsins (Eurostat) samræmda vísitölu neysluverðs á föstudaginn.

„Í febrúar síðastliðnum mældist tólf mánaða taktur vísitölunnar að meðaltali um 2,8% innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) en um 2,4% sé tekið mið af ríkjum evrusvæðisins. Hefur verðbólga aukist nokkuð á síðustu mánuðum sem á einna helst rætur sínar að rekja til hrávöruverðshækkana, eins og olíuverðs, á alþjóðamörkuðum. Á hinn bóginn hefur þróunin verið með nokkuð öðrum hætti á samræmdu vísitölunni fyrir Ísland, en verðbólga á hennar mælikvarða  hefur farið hjaðnandi, sem má einna helst skýra með því að þau miklu áhrif sem fall krónunnar í kjölfar bankahrunsins hafði á verðbólgu hérlendis eru að fjara út. Mældist verðbólgan hér á landi miðað við samræmdu vísitöluna 2,3% í febrúar og var það annar mánuðinn í röð sem verðbólgan mældist undir meðalverðbólgu í ríkjum EES,“ segir í Morgunkorni greiningar í dag.