Seðlabanki Evrópu, ECB, mun í dag tilkynna stýrivexti sína og er almennt búist við því að þeir verði óbreyttir í 1,25%. Sérfræðingar höfðu fyrr á árinu átt von á vaxtahækkun í dag en vegna orðalags á síðasta stýrivaxtafundi, sem fram fór í maí, er það ekki talið munu gerast. Þess í stað er reiknað með að Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri, gefi það til kynna að stýrivextir verði hækkaðir í júlí.

Mikil óvissa ríkir þó um efnahagshorfur í heiminum og ýmis tákn um aukna svartsýni má lesa út úr hinum og þessum hagvísum. Þó fer verðbólga hækkandi og ljóst að við því verður að bregðast.

Þá er einnig gert ráð fyrir þvi að Englandsbanki haldi stýrivöxtum óbreyttum í dag.