Hlutafjárútboð kínverska netfyrirtækisins Alibaba í New York hefst á morgun. Það gæti orðið stærsta hlutafjárútboð sögunnar en síðast var metið slegið þegar Agricultural Bank of China aflaði 22,1 milljarði bandaríkjadollara þegar það skráði sig á kauphöllina í Hong Kong árið 2010. Því er spáð að netfyrirtækið gæti aflað 22 til 25 milljörðum bandaríkjadollara þegar hlutabréf þess verða skráð í kauphöllina á morgun.

Mánudaginn síðastiðinn tilkynntu forsvarsmenn Alibaba að það hefði hækkað verðbilið á hlutum í félaginu úr 60-66 dollurum á hlut yfir í 66-68 dollurum á hlut. Var það gert í kjölfar aukinnar eftirspurnar frá fjárfestum vegna útboðsins á morgun.

Hækkun verðbilsins er sérstakt gleðiefni fyrir netfyrirtækið Yahoo sem er annar stærsti hlutafinn í Alibaba. Fyrirtækið gæti aflað rúmum átta milljörðum bandaríkjadollara vegna útboðsins þar sem það hyggur á að minnka hlut sinn úr 22,4 prósentum yfir í 16,3 prósent.