Búlgaría og Króatía hafa fengið samþykki fyrir inngöngu í gengissamstarf Evrópu (ERM-2), kerfi fyrir stjórnun á gengissveiflum, sem á að auðvelda inngöngu þjóða í sameiginlega gjaldmiðilinn. Financial Times segir frá .

Ákvörðunin var samþykkt á föstudaginn af fjármálaráðherrum evrusvæðisins, Evrópska seðlabankanum (ECB) og Danmörku, sem hefur verið meðlimur ERM-2 frá árinu 1999, eftir að samleitniskýrslur gáfu til kynna að hagkerfi beggja þjóða væru í samræmi við hagkerfi evrusvæðisins.

Aðgerðir þjóðanna til að fá samþykkta inngöngu í ERM-2 voru meðal annars í tengslum við peningaþvætti, greiðslustöðvunarlög og breytingar á reglum sem varða stjórnun ríkisrekinna fyrirtækja.

Innganga og áframhaldandi seta í ERM-2 er eitt af fjórum meginskilyrðum sem þjóðir þurfa að uppfylla til að komast inn á evrusvæðið. Gjaldmiðill þjóðar þarf að haldast inn 15% vikmarka frá miðgengi evrunnar í tvö ár.

Hin meginskilyrðin fyrir upptöku evrunar eru verðstöðugleiki, traust og sjálfbær opinber fjármál og varanleg efnahagsleg samleitni (e. convergence).

Christine Lagarde, forseti ECB, sagði að Bulgaría og Króatía hafi tekið „stórt skref í átt að inngöngu í evrusvæðið“. „Evran er hluti af sameiginlegu einkenni okkar og er áþreifanleg tenging á milli meira en 340 milljóna manna víðs vegar um Evrópu.“

ECB staðfesti einnig að þjóðirnar tvær myndu ganga inn í Evrópska bankasambandið, kerfi fyrir sameiginlegt eftirlit og stjórnun bankageirans á neyðartímum sem sett var á laggirnar í kjölfar evrópsku skuldakreppunnar.