Búlgarska fjármálaeftirlitið (Financial Supervision Commission (FSC)) hefur hafið rannsókn á sölunni á 90% hlut búlgarska símarisans BTC til bandaríska fjárfestingarfélagsins AIG Global Investment Group. Rannsókn FSC beinist að því hvort yfirtökuskylda hafi myndast þegar fjárfestingarfélagið Viva Ventures seldi kauprétt sinn til bandarísks fjárfestingarsjóðs að nafni Advent.

Tómas Ottó Hansen hjá Novator segir í samtali við Viðskiptablaðið í dag að þessi fyrirspurn eftirlitsins sé eðlileg í ljósi stærðar viðskiptanna og sagðist Tómas ekki hafa áhyggjur af niðurstöðu rannsóknarinnar vegna viðskiptanna en Novator er búið að afhenda bréf þau sem félagið átti í BTC. Novator, fjárfestingarfélag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, samþykkti fyrr á árinu að selja AIG kauprétt sinn að 65% hlut í BTC en kauprétturinn var í höndum Advent. Advent keypti hann af Viva Ventures fyrir 280 milljónir evra árið 2004. Novator tók yfir þessa skuldbindingu þegar hluturinn var keyptur af Advent. Að sögn Tómasar var fyrirkomulag sölunnar með þeim hætti að ekki hefði átt að koma til yfirtökuskyldu hjá Viva Ventures en Novator átti rétt á því að eignast allt hlutafé félagsins.

Í upphafi árs 2006 öðlaðist Novator rétt til að eignast allt hlutafé Viva Ventures, sem staðsett er í Vín, en félagið átti þá 65% hlut í BTC. Viva Ventures greiddi 230 milljónir evra fyrir hlutinn sumarið 2004. Síðar keypti Novator 25% hlut til viðbótar og tryggði sér þannig 90% í félaginu. Samkvæmt upplýsingum frá Novator var um að ræða stærstu skuldsettu yfirtöku í Mið- og Austur Evrópu fram til þessa.