Búlgarska ríkið á rétt á að fá hluta söluhagnaðar þess sem myndast við sölu á BTC til bandaríska fjárfestingarfélagsins AIG Global Investment Group. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins gæti sú upphæð numið 10% af þeim nettósöluhagnaði sem myndaðist umfram 300 milljóna evra söluverð. Þessi greiðsla verður innt af hendi af þeim sem tóku þátt í einkavæðingu félagsins fyrir þremur árum. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Greiðslan fer fram í júní næstkomandi þegar sölubanni verður aflétt og einkavæðingarsamningur vegna sölu félagsins rennur út.

Búlgarskir fjölmiðlar hafa sem eðlilegt er fjallað töluvert um söluna á BTC og hefur Grozdan Karadzhov, fyrrverandi stjórnarmaður félagsins, verið áberandi í þeirri umræðu, en hann gagnrýndi aðkomu fjárfesta að málinu og sagði að þeir hefðu ekki staðið við gefin fyrirheit um fjárfestingar í félaginu. Meðal ákvæða þeirra sem giltu þegar BTC var einkavætt var að nýir eigendur skyldu fjárfesta fyrir umtalsverðar fjárhæðir í félaginu. Það vill Grozdan Karadzhov meina að hafi ekki verið gert. Þess í stað hafi mikilir fjármunir verið teknir út úr BTC, svo nemur hundruðum milljóna leva. Karadzhov er hins vegar umdeildur maður í Búlgaríu og hefur verið tengdur stjórnmálaflokki sem hefur setið undir hörðum ásökunum um spillingu.

Í yfirlýsingu sem send var af út af Novator í Búlgaríu í kjölfar ummæla Grozdan Karadzhov kemur fram að félagið hyggst standa við öll gefin fyrirheit vegna einkavæðingar BTC.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.