Hamborgarabúlla Tómasar mun opna nýjan stað í Spönginni í Grafarvogi síðsumars en Búllan á Bíldshöfða hefur átt dyggan kúnnahóp úr hverfinu í gegnum árin.

„Við höfum verið á Bíldshöfða í mörg ár og erum þar með dyggan kúnnahóp úr Grafarvoginum, þannig að við sjáum mikil tækifæri í hverfinu. Þetta er stórt hverfi og þróunin hefur verið þannig að fólk vill í meiri mæli sækja þjónustu inni í hverfunum. Staðirnir sem eru meira „lókal" hafa frekar verið að sækja í sig veðrið en staðirnir sem eru niðri í bæ. Við erum búin að hafa auga á Grafarvoginum í svolítinn tíma og sáum þarna tækifæri til þess að komast í gott pláss í Spönginni svo við slógum til," segir Sigurður Bjarnason, framkvæmdastjóri Hamborgarabúllu Tómasar.

Staðurinn verður um 130 fermetrar, með 25 sæti og verður lagt upp með að fólk geti ekki síður notið þess að sitja og borða á staðnum en að sækja sér mat. „Við verðum með bjór á dælu og ætlum að skapa kósý stemningu þar sem fólk getur notið þess að borða og fá sér bjór, svona meiri „út að borða" stemning, ekki bara „take-away" skyndibiti. Í Spönginni hefur ekki verið mikið um að þú getir borðað á staðnum, heldur hefur verið meiri fókus á „take-away".

Fyrir skömmu bárust fregnir af mögulegri breytingu á deiliskipulagi Kringlubæjar þar sem til greina kemur að rífa húsnæði Búllunnar í Ofanleiti. Sigurður vonast þó til að Búllan verði þar áfram. „Við myndum ekkert vilja fara nema það byðist önnur góð staðsetning mjög nálægt. Staðurinn er orðinn rótgróinn og það er svo góður fílingur í þessu húsi inni í miðju hverfinu að manni myndi þykja mjög erfitt að sjá á eftir staðnum. Við eigum rosalega góðan fastakúnnahóp í Ofanleitinu sem okkur þykir vænt um og gætum ekki hugsað okkur að yfirgefa það."

Heimsendingar hjálpuðu erlendis

Sigurður segir gengi Búllunnar erlendis í faraldrinum hafa verið misjafnt eftir staðsetningum, en Búllan er í Kaupmannahöfn, Bretlandi og Þýskalandi. „Þeir staðir sem eru á svæðum þar sem margt fólk býr hafa gengið þokkalega þar sem við höfum getað haldið þeim opnum með heimsendingum. Það eru öflugar heimsendingarþjónustur í þessum löndum á borð við Deliveroo, Uber eats og Wolt þar sem fólk fær mat heim 10-15 mínútum eftir pöntun frá nálægum stöðum, sem virkar rosalega vel. Þetta er svolítið öðruvísi en hér heima þar sem það tekur lengri tíma að fá heimsent."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal efnis í Viðskiptablaðinu er:

  • Ítarleg umfjöllun um hlutafjárútboð Íslandsbanka verður í blaðinu.
  • Deilur leigusala Fosshótel Reykjavík við félagið halda áfram og taka á sig nýja mynd.
  • Farið yfir úrskurði sem fallið hafa borginni í óhag hjá kærunefnd útboðsmála.
  • Rætt er við Birgi Jónsson, forstjóra Play, um hlutafjárútboð félagsins og framtíðina í fluggeiranum.
  • Auka þurfti hlutafé félags um byggingu lúxushótels um 4 milljarða króna.
  • Hópur ungra frumkvöðla hefur búið til smáforrit þar sem hægt er að eiga sýndarviðskipti á íslenskum hlutabréfamarkaði.
  • Rætt er við nýjan framkvæmdastjóra fiskeldisfyrirtækis á Ísafirði.
  • Óðinn fjallar um útboð Íslandsbanka og málefni Viðreisnar.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um lýðræðisblekkingar.