Margrét Guðmundsdóttir, forstjóri Icepharma, sem flytur inn lyf og aðrar heilbrigðisvörur, segir að mikil samkeppni sé innan fyrirtækisins. Icepharma hefur ýmsa erlenda umbjóðendur sem eru í samkeppni þegar kemur að útboðum Ríkiskaupa. Traustir eldveggir eru innanhúss og þess vel gætt að hagsmunaárekstrar myndist ekki, enda er það nauðsynlegt svo hinir erlendu birgjar geti treyst fyrirtækinu.

Margrét segir að yfirbygging fyrirtækisins sé mjög lítil. Það eigi ekki eignir; sé í leiguhúsnæði og sé með allan bílaflotann á rekstrarleigu. Systurfélagið Parlogis sjái um vörustýringu og eigi vörulagerinn og útistandandi kröfur séu engar. "Það gerir rekstur svona fyrirtækis miklum mun einfaldari en ella. Flækjustigið er miklu minna -- einsleitara starfsfólk og auðveldara að halda utan um hlutina," segir hún í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið í dag