Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, segir þær kröfur sem lýstar hafa verið í bú hans vera „bullkröfur“.

Eins og greint var frá í gær þá námu lýstar kröfur í þrotabú Sigurðar 254,3 milljörðum króna. Aðeins fengust 38 milljónir króna upp í veðkröfur en ekkert fékkst upp í aðrar kröfur. Stærstu kröfuhafar voru Chesterfield United sem lýsti 99 milljörðum króna, Deutsche Bank sem lýsti 73 milljörðum, Murray Holdings sem lýsti 58 milljörðum og Arion banki sem lýsti 21 milljarði.

Átti að eyðileggja bankamenn fjárhagslega

Sigurður afplánar nú fjögurra ára dóm á Kvíabryggju en hann var í ítarlegu viðtali við áramótablað Viðskiptablaðsins. Þar ræddi Sigurður m.a. um Evu Joly, kröfur í þrotabúið og kostnað við málarekstur gegn honum; en hann segir að kostnaðurinn við málareksturinn sé kominn yfir eitt hundrað milljónir króna:

„Ég er orðinn persónulega gjaldþrota og kröfur í þrotabúið munu vera um 250 milljarðar króna. Kröfuhafarnir eru flestir félög sem tengjast slitabúi Kaupþings. Í mínum huga eru þetta bullkröfur sem fást aldrei greiddar. En þetta sýnir hversu mikið mark var tekið á fyrirmælum Evu Joly. Hún sagði að setja ætti bankamenn í fangelsi og eyðileggja þá fjárhagslega. Í lögum um meðferð sakamála er meginreglan sú að í svona tilviki skuli gefin út ein ákæra vegna allra brota sem maður er talinn sekur um. Ég er ákærður í fjórum málum og félagar mínir eru með fleiri mál á bakinu. Hefði ég hefði aðeins þurft að verja mig einu sinni væri kostnaðurinn miklu lægri. Kostnaður samfélagsins væri einnig miklu lægri, en kostnaður virðist ekki skipta miklu máli þegar kemur að embætti sérstaks saksóknara.“

Sigurður segir í samtali við DV sem birtist í dag að þær kröfur sem voru lýstar í þrotabúið séu ekki raunverulegar kröfur. Hann segist auk þess ekki hafa nein tengsl við þessi félög.

Sigurður Einarsson er í ítarlegu viðtali í tímaritinu Áramót sem kom út 30. desember síðastliðinn. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .