*

mánudagur, 6. apríl 2020
Fólk 23. febrúar 2020 19:01

Bumbuboltinn heilagur tími

Lilja Kjalarsdóttir er nýr framkvæmdastjóri SagaNatura.

Höskuldur Marselíusarson
Eftir tvö ár sem aðstoðarframkvæmdastjóri hefur Lilja Kjalarsdóttir tekið við stjórn SagaNatura.
Aðsend mynd

Við Sjöfn Sigurgísladóttir erum búin að vinna mjög þétt saman þessi tvö ár sem ég hef verið hérna og hefur það þróast þannig að ég hef verið að taka við fleiri verkefnum frá henni samhliða uppbyggingu félagsins. Á þessu ári stefnir félagið á að tvöfalda tekjur sínar í 600 milljónir króna enda vorum við að klára stóra samninga í Kína, Bandaríkjunum og Evrópu,“ segir Lilja Kjalarsdóttir sem tekið hefur við framkvæmdastjórn SagaNatura af Sjöfn sem sest hefur í stjórn félagsins.

„Við það að ég taki að mér þennan daglega rekstur, vöruþróun og að auka afköst þörungaframleiðslunnar fyrir áframhaldandi útrás mun Sjöfn geta einbeitt sér að því að þróa frekar spennandi tækifæri sem hafa komið upp sem afsprengi vinnu félagsins við að afla sér einkaleyfa á framleiðsluaðferðunum. Með tækninni okkar er hægt að framleiða þörunga á hagkvæman hátt í stórum stíl, sem til dæmis gæti nýst fyrir laxeldi í Noregi sem er risastór markaður. Jafnframt gætum við sett upp sérleyfisskylda framleiðslu hjá öðrum, enda hægt að framleiða tvö þúsund sinnum meira af próteini á fermetra á ári með smáþörungum en í nautgriparækt.“

Lilja er doktor í lífvísindum frá UT Southwestern háskóla í Dallas í Texas, en meðan hún bjó í Bandaríkjunum eignaðist hún tvo stráka, sem nú eru á áttunda og ellefta ári, með eiginmanni sínum, Svavari Sigursteinssyni einkaþjálfara og ljósmyndara.

 „Ég kynntist Svavari í ræktinni, en ég er uppalin í fótbolta í Stjörnunni þar sem ég var fyrirliði kvennaliðsins í nokkur ár. Ég ákvað að fórna fótboltaferlinum fyrir námið, enda konur ekki að næla sér í mikla peninga í fótbolta ennþá, en ég spila enn bumbubolta tvisvar í viku, annars vegar með mikið til gamla kvennalandsliðinu og hins vegar strákum. Þessir klukkutímar í viku eru heilagir því það er nauðsynlegt fyrir andlegt heilbrigði að hitta vini, spila saman og hlæja. Síðan höfum við fjölskyldan gaman af því að vera úti í náttúrunni, fara í útilegur og fjallgöngur og hjólatúra. Í sumar gistum við til dæmis á tjaldsvæðinu Fjalladýrð við Herðubreið og hjóluðum út um allt þar í kring.“

Nánar er rætt við Lilju í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér