Finnur Árnason forstjóri Haga segir að skemmdir í flutningum á innanstokksmunum fyrir verslun Hagkaupa sem opna á næstkomandi laugardag í Kringlunni á ný muni ekki valda töfum á því. Opnunin er liður í 30 ára afmælishátíð Kringlunnar sem hefst á fimmtudag og stendur fram yfir helgi.

Um er að ræða rúllustiga frá Kína og kælitæki frá Evrópu en þau skemmdust í flutningunum til landsins fyrr í haust svo panta þarf nýjan stiga og tæki að því er Vísir greinir frá.

„Við stefnum enn að opnun Hagkaups í Kringlunni næsta laugardag og viku seinna í Zöru. Það hafa verið ýmsar uppákomur en þetta hefur gengið stórslysalaust,“ segir Finnur en verslun fyrirtækisins á fyrstu hæð var lokað um miðjan ágúst við flutning starfseminnar allrar á eina hæð með tilkomu H&M á aðra hæðina.

„Þegar gámarnir voru opnaðir hér uppgötvuðust skemmdirnar. Þetta hefur slegist til í gámunum í einhverju veðri og er ónýtt en þetta er tryggt. Við leysum þetta tímabundið á annan hátt og þetta ætti því ekki að koma að sök. Þetta er svo ekki nema hluti af kælunum í Hagkaupsbúðinni.“

Kringlan náði 30 ára afmæli 13. ágúst síðastliðinn en afmælishátíðinni var frestað vegna breytinganna í verslunum Hagkaupa og opnunar H&M í september að sögn Sigurjóns Arnar Þórssonar framkvæmdastjóra Kringlunnar.