Burðarás áætlar að gefa út nýtt hlutafé til að fjármagna kaupin á Kaldbak. Fram kemur í tilkynningu að hlutafé í félaginu muni hækka um allt að 1.119 m.kr. að nafnvirði ef hluthafafundur samþykkir hlutafjáraukninguna. Í Vegvísi Landsbankans er bent á að ef tekið er mið af lokagengi Burðaráss í gær (14,8) jafngildir það að kaupverð Kaldbaks hafi verið um 16,5 ma.kr. Að vísu hækkuðu bréfin í gær eftir að opnað var fyrir viðskipti með þau, þannig að ef mið er tekið af lokaverði bréfanna á miðvikudaginn þá er kaupverðið rúmir 16,3 ma.kr. Markaðsvirði Kaldbaks var 14,1 ma.kr. við lokun markaða í gær en gengi félagsins hefur hækkað um 16,8% í dag og er markaðsvirði þess nú 16,5 ma.kr segir í Vegvísnum.

Burðarás hefur nú tryggt sér 76,8% hlut í Kaldbaki. Seljendur hlutarins voru Samson Global Holdings (27%), Samherji (25%) og Baugur (24,8%). Í gær keypti Kaldbakur 27% af eigin bréfum af Kaupfélagi Eyfirðinga, en hluturinn var svo framseldur til Samson. Samson, Samherji og Baugur fá hlutafé í Burðarási sem endurgjald fyrir hluti sína í Kaldbaki en skiptigengið er 0,63784 hlutir í Burðarási fyrir hvern hlut í Kaldbak. Öðrum hluthöfum Kaldbaks verður boðið að selja hluti sína á sömu kjörum til Burðaráss.