Hagnaður Burðaráss á fyrstu þremur mánuðum ársins 2005 nam 4.619 milljónum króna (mkr.) og er arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli 44,0%. Hagnaður dótturfélags Burðaráss, Eimskipafélags Íslands ehf., var 70 milljónir króna. Reikningsskil Burðaráss eru nú birt í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla í fyrsta sinn.

Hagnaður samstæðunnar var 4.619 mkr.á fyrstu þremur mánuðum ársins 2005. Hagnaður fjárfestingarstarfseminnar var 4.619 mkr. á sama tíma. Þá skilaði 16,6% hækkun á innlendum verðbréfamarkaði félaginu 4.547 mkr. en einnig námu arðgreiðslur frá félögum í eigu Burðaráss 1.276 mkr. á tímabilinu.

Gert er ráð fyrir að afkoma Eimskips verði góð á yfirstandandi ári þrátt fyrir 200 mkr. gjaldfærslu í rekstrarreikningi vegna tjóns Dettifoss í upphafi árs. Áætluð EBIDTA fyrir árið 2005 er 3.300 mkr.

Afkoma flutningafélagsins var 70 milljónir króna á fyrstu þremur mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra var 46 milljóna króna tap á félaginu.

Eiginfjárhlutfall lækkar

Heildareignir voru 100.816 mkr. (100,8 milljarðar) þann 31. mars 2005 en voru 80.857 milljónir kr. í ársbyrjun og
hafa því aukist um 25%. Skuldir samstæðunnar námu 55.393 mkr. í lok mars 2005 en voru 38.834 í upphafi árs 2005. Eigið fé samstæðunnar var 45.423 mkr. á sama tíma en var 42.023 mkr. í upphafi árs 2005. Eiginfjárhlutfall er því 45,1 % en var 52,0% í ársbyrjun 2005.

Fjárfestingartekjur samstæðunnar námu 5.412 mkr. á fyrsta ársfjórðungi 2005 en voru 5.866 mkr. á sama tímabili í fyrra. Þar af námu arðgreiðslur til félagsins 1.276 mkr og hagnaður eignarhlutum og afleiðum var 4.900 mkr. Sú breyting hefur verið gerð á reikningsskilum félagsins að óinnleystar tekjur koma nú fram undir liðnum hagnaður af eignarhlutum og afleiðum en voru áður sýndar sérstaklega.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.