Burðarás hefur selt allan eignarhlut sinn í norska félaginu Exploration Resources samkvæmt tilkynningu til Kauphallar Noregs í dag. Burðarás átti 556.646 hluti í félaginu eða 8,2% en söluverð var 340 NOK á hvern hlut. Kaupandi hlutanna er franska félagið CGG sem á nú um 60% af hlutafé Exploration Resources og hefur nú gert yfirtökutilboð í félagið segir í Vegvísi Landsbankans.

Í byrjun júní flaggaði Burðarás í Exploration Resources þegar félagið keypti 200.000 hluti á genginu 152 NOK en eftir þau kaup átti Burðarás 435.000 hluti eða 6,6% í norska félaginu. Frá þeim tíma bætti Burðarás lítilsháttar við eignarhlut sinn því eins og áður sagði átti félagið 556.646 hluti í norska félaginu við söluna. Það er því erfitt að segja nákvæmlega hvert meðalkaupgengi hlutanna er en ávöxtunin er í kringum 100% og það á aðeins þremur mánuðum. Í lok annars ársfjórðungs var gengi Exploration Resources í 188 NOK á hlut og því verður myndarlegur gengishagnaður vegna þessa eignarhlutar á þriðja ársfjórðungi eða um 700-800 m.kr.

Byggt á Vegvísi Landsbankans.