Burðarás keypti í dag hlut Steinunnar Jónsdóttur í Íslandsbanka fyrir liðlega 7,3 milljarða króna. Um er að ræða 4,11% hlut í bankanum og er Burðarás þar með orðinn þriðji stærsti hluthafinn í bankanum með 7,46% hlut.
Í hálffimmfréttum KB banka er bent á að samanlagður eignarhlutur Burðaráss og Straums í Íslandsbanka nemur nú um 28,9%, en Burðarás er þriðji stærsti hluthafinn í Straumi. Segir í frétt bankans að ekki sé ólíklegt að til frekari tíðinda dragi á næstunni í Íslandsbanka, í kjölfar sterkari stöðu Straums og tengdra aðila.