Burðarás hefur keypt 15% hlut í sænska fyrirtækinu Scribona AB. Þetta kom fram í fréttatilkynningu Burðaráss í Svíþjóð sem síðan birtist í fréttakerfi Bloomberg. Fréttatilkynningin var hins vegar ekki birt í fréttakerfi Kauphallarinnar eins og bent er á í Morgunkorni Íslandsbanka. Markaðsverðmæti Scribona er um 7,3 ma.kr. og nema kaupin því nálægt 1,1 ma.kr.

Scribona selur tölvubúnað, hugbúnað og tengda þjónustu og eru helstu viðskiptavinir þess lítil og meðalstór fyrirtæki en einnig smásalar. Afkoma félagsins hefur verið slök síðustu misserin. Tap var árin 2001 og 2002 en afkoman var í járnum árið 2003 og á fyrstu níu mánuðum ársins 2004. Unnið hefur verið að því að endurskipuleggja reksturinn og dregið hefur verið úr óarðbærri starfsemi. Starfsmenn félagsins eru ríflega þúsund talsins og hefur fækkað mikið - voru t.d. um 1.500 árið 2001 og 1.300 árið 2003 eins og bent er á í Morgunkorninu.

Velta Scribona er mjög mikil samanborið við veltu upplýsingatæknifyrirtækja hér á landi enda er félagið að keppa á mun stærri markaði. Veltan nam 106 mö.kr. árið 2003 og á fyrstu níu mánuðum síðasta árs nam veltan 74 mö.kr. Þrátt fyrir mikla veltu hefur hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) verið mjög lítill. EBITDA hagnaður 2003 nam 845 m.kr. eða sem nemur 0,8% af tekjum. Afkoma félagsins hefur því verið slök á undanförnum árum en hagnaður á fyrstu níu mánuðum síðasta árs nam 117 m.kr. og allt árið 2003 var hagnaðurinn 9 m.kr. Það má þó búast við að afkoma Scribona batni á næstu árum en ráðist hefur verið í hagræðingaraðgerðir sem áætlað er að skili félaginu 225 m.kr. á ári.