Burðarás er komið með 6,19% eignarhlut í Finnair, að því er fram kemur í Vegvísi greiningardeildar Landsbanka Ísland í dag. Tilkynnt hefur verið um eignarhlutinn í finnsku Kauphöllinni. Gengi Finnair endaði í 6,30 evrum og er markaðsvirði hlutarins því 33 m.EUR eða um 2,7 ma.kr.

Í Vegvísum segir einnig um afkomu Finnair: "Finnair birti í dag uppgjör fyrir fjórða ársfjórðung síðasta árs og var um töluverðan afkomubata milli ára að ræða. Tekjur fjórðungsins námu 451,1 m.EUR (37,5 mö.kr.) og jukust um rúm 11% milli ára. Hagnaður félagsins nam 0,5 m.EUR á fjórðungnum en til samanburðar var 6,9 m.EUR tap á rekstri Finnair á sama tíma í fyrra. Samsvarandi aukning var á rekstrarhagnaði án afskrifta og flugvélaleigu (EBITDAR) á fjórða ársfjórðungi, sem jókst um tæp 33% milli ára. Afkoma félagsins er sérstaklega góð í ljósi þess að heimsmarkaðsverð á olíu var mjög hátt á tímabilinu og fór heimsmarkaðsverð á olíu til að mynda yfir 56 dollara á tunnu á mörkuðum í New York í lok október. Hækkun olíuverðs endurspeglast í hærri eldsneytiskostnaði Finnair sem jókst um 24,1 m.EUR eða sem nemur rúmum 60%.

Afkoma ársins í heild batnaði einnig og námu tekjur Finnair 1.698,4 m.EUR og jukust um 9% milli ára. Hagnaður ársins nam 11,2 m.EUR en á árinu 2003 var 21,7 m.EUR tap á rekstri félagsins. EBITAR ársins nam 193,3 m.EUR og jókst um rúm 25% milli ára."