Burðarás á nú 4,5% hlut í innheimtufyrirtækinu Intrum Justitia og sömuleiðis hefur Landsbanki Íslands eignast sem svarar 2,5% hlut. Um þetta er fjallað í Viðskiptablaðinu í dag þar sem leiddar eru líkur að því að félögin skoði yfirtöku á Intrum Justitia sem er skráð í sænsku kauphöllinni. "Við höfum áhuga á þessu félagi sem fjárfestingu enda teljum við okkur vera að fjárfesta í góðu fyrirtæki með ágæta vaxtarmöguleika," var það eina sem Friðrik Jóhannsson, framkvæmdastjóri Burðaráss, vildi láta hafa eftir sér í Viðskiptablaðinu þegar haft var samband við hann í gær. Kaupum Landsbankans hefur hins vegar ekki verið flaggað ennþá.

Intrum Justitia var skráð í kauphöllina í Stokkhólmi 12. júní 2002 og var skráningargengið 50. Segja má að skráningin hafi ekki tekist sem skyldi því félagið lenti í netniðursveiflunni auk þess sem forstjóri félagsins sagði af sér fyrirvaralaust strax í september 2002. Félagið hafði áður verið skráð í kauphöllina í London en var tekið af skrá þar.

Intrum Justitia rekur starfsstöðvar í um 27 löndum og þar á meðal hér.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.