Breski fataframleiðandinn Burberry hefur ákveðið að færa sig ofar í gæðastiganum og leggja áherslu á sölu lúxusvara til efnameiri viðskiptavina. Breytingin kemur þó ekki að kostnaðarlausu og er áætlaður kostnaður við stefnubreytingu félagsins 110 milljónir punda, andvirði tæpra 15 milljarða króna. Þetta kemur fram á vef Reuters .

Fjárfestar virðast telja kostnaðinn í hærra lagi því að hlutabréf félagsins féllu um 11% þegar breyting var tilkynnt í morgun. Þykir þetta til marks um hversu viðamiklar áskoranir nýs forstjóra, Marco Gobbetti eru en Burberry tilkynnti í síðustu viku að yfirhönnuður félagsins, Christopher Bailey, sem gerði Burberry að alþjóðlegu merki væri á förum frá fyrirtækinu á næsta ári.