*

þriðjudagur, 22. september 2020
Fólk 10. september 2020 13:31

Burkni og Lucas ráðnir til Expectus

Expectus hefur fengið þá Burkna Maack Helgason og Lucas Evrard til liðs við ráðgjafa- og hugbúnaðarfyrirtækið.

Ritstjórn
Burkni Maack Helgason og Lucas Evrard hafa gengið til liðs við Expectus en Burkni hefur starfað hjá AGR, CreditInfo og Meniga, en Lucas hefur unnið í ráðgjöf í viðskiptagreind í Frakklandi.
Aðsend mynd

Ráðgjafa- og hugbúnaðarfyrirtækið Expectus hefur ráðið til sín tvo sérfræðinga, þá Burkna Maack Helgason og Lucas Evrard.

Burkni Maack Helgason er með M.Sc. í Véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og hefur unnið sem sérfræðingur í greiningum og gögnum í yfir 15 ár hjá fyrirtækjum eins og AGR, CreditInfo og Meniga. Hjá Expectus mun Burkni leggja megin áherslu á innleiðingu viðskiptagreindar og tekjueftirlits hjá fyrirtækjum og stofnunum með TimeXtender, exMon og fleiri lausnum.

Lucas Evrard hefur unnið í ráðgjöf í viðskiptagreind í Frakklandi undanfarin ár. Hann starfaði meðal annars undanfarin 5 ár hjá Ingenia Consulting og BGFi þar í landi, bæði sem ráðgjafi og verkefnastjóri. Hans sérsvið er í viðskiptagreind tengd bönkum, smásölu og mannauðsmálum, og hefur hann unnið fyrir fyrirtæki á borð við BNP Paribas, Canal + Telecom og Louis Vuitton. Lucas mun leggja megin áherslu á innleiðingu viðskiptagreindar með Tableau og TimeXtender.

„Við höfum séð viðskiptaumhverfið breytast mikið á þessu ári og viðskiptavinir okkar vilja bregðast hratt við þessum breytingum með betri upplýsingum,” segir Gunnar Steinn Magnússon, framkvæmdastjóri Expectus.

„Einnig hafa aðstæðurnar orðið til þess að fyrirtækin eru að leggja auknar áherslu á stafræna vegferð sína, og mörg þeirra hafa gert miklar breytingar á örskömmum tíma. Til þess að bregðast við þessum áskorunum viðskiptavina okkar höfum við verið að styrkja ráðgjafahópinn okkar í Expectus og eru Burkni og Lucas öflug viðbót í hópinn.“