Vogunarsjóðurinn Burlington Loan Management, sem var á meðal stærstu kröfuhafa Kaupþings, hefur selt nær allar kröfur sem hann átti á hendur slitabúinu. Þetta kemur fram í Viðskiptamogganum, sem kveðst hafa kröfuskrá Kaupþings undir höndum.

Í byrjun árs 2013 námu kröfur Burlington um 110 milljörðum króna, eða tæplega 4% allra samþykktra krafna. Fram kemur í Viðskiptamogganum að miðað við að væntar endurheimtur almennra kröfuhafa Kaupþings séu nú um 25% megi áætla að markaðsvirði krafnanna hafi verið um 28 milljarðar. Í dag eigi sjóðurinn hins vegar kröfur á hendur Kaupþingi fyrir um 2 milljarða króna.

Stærsti kröfuhafi Kaupþings er bandaríski vogunarsjóðurinn York Capital Management og á hann kröfur fyrir nærri 200 milljarða króna.