„Gegnheilt Búrmatekk er dýrasta parket sem hægt er að fá á Íslandi í dag,“ segir Elías Melsteð, sölustjóri hjá Parket og gólf. Hann segir Búrmatekkið hið upprunalega tekk en erfitt hafi verið að fá það síðan landinu var lokað eftir síðustu aldamót en við það rauk verðið upp. „Eftir það hafa menn notast við Malasíutekk, Afríkutekk og Brasilíutekk en upprunalega tekkið er frá Búrma. Þetta er vinsælt á einkasnekkjur og skemmtiferðskip því það þolir seltuna vel.“

En skyldu margir á Íslandi vera með Búrmatekk á sínum gólfum?

„Já já, það eru einhverjir með þetta, ég gef ekki upp hverjir það eru auðvitað. En það bjóða allar verslanir á Íslandi upp á þetta tekk.“

Elías segir gólfefnabransann á Íslandi sérstakan: „Það tíðkast hvergi í heiminum að það séu tólf gólfefnabúðir fyrir 300 þúsund manns. Íslendingar mæta líka í búðirnar og velja sitt parket sjálfir. Í Evrópu sjá iðnaðarmenn um þetta.“

Hann segir mikla viðhorfsbreytingu gæta hjá fólki sem verslar nú miðað við fyrir hrun: „Fyrir hrun skipti það ekki máli hvað neitt kostaði, fólk keypti bara það sem það langaði í. Þetta hefur allt breyst, fólk spáir meira í gæði, meira að segja þeir sem eiga mikinn pening.“

Og hvað kostar Búrmatekk?

„Risaplanki, alveg ómeðhöndlaður er svona 50 til 60 þúsund fermeterinn. En nú er búið að friða þetta tré svo menn eru farnir að horfa í aðra átt.“ TIl samanburðar kostar þriggja stafa eik sem er hefðbundið eikarparket 5000 krónur fermeterinn.