"Hvernig náum við bestum árangri í fjárfestingum?" er yfirskrift árlegs vorfundar Eignastýringar Íslandsbanka sem haldinn er kl. 20 þriðjudaginn 1. mars á Nordica hótel. Sérstakur gestur fundarins er Dr. Burton G. Malkiel, höfundur metsölubókinnar A Random Walk Down Wall Street sem kennd er við háskóla um allan heim.

Malkiel er prófessor í hagfræði við hinn virta Princeton háskóla í Bandaríkjunum og situr meðal annars í stjórn The Vanguard Group Investment Companies, en Vanguard hefur í mörg ár verið samstarfsaðlili Eignastýringar. Malkiel er með B.A. og MBA gráðu frá Harvard og Ph.D. gráðu frá Princeton. Hann hóf starfsferil sinn í fjárfestingabankadeild Smith Barney & Co. Yfirskrift erindis Malkiels er ?A Lifetime's Reflection on Investing".

Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka, flytur ávarp í upphafi fundarins og Sigurður B. Stefánsson, framkvæmdastjóri Eignastýringar Íslandsbanka, flytur erindi undir yfirskriftinni: ?Hver og einn þarf að finna sína eigin leið við fjárfestingu í hlutabréfum. Fundarstjóri er Guðfinna Bjarnadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík.

A Random Walk Down Wall Street kom fyrst út árið 1973 og árið 2003 kom endurbætt áttunda útgáfa bókarinnar út. Hún er ein þekktasta bók á sviði eignastýringar og ómissandi fyrir þá sem vilja ná árangri við fjárfestingar. Í bókinni fjallar Malkiel um æviskeiðakenninguna og áhættugreiningu í tengslum við hana í því skyni að byggja upp eignir til framtíðar. Að auki er í bókinni fjallað um hugtakið skilvirkan markað og mismunandi form hans.