„Neikvætt viðhorf einstakra stjórnenda Íbúðalánasjóðs til húsnæðissamvinnufélaga hefur gert félaginu erfitt fyrir. Misvísandi, og í sumum tilvikum röng upplýsingagjöf, er alvarlegur hlutur,“ segir Benedikt Sigurðsson, framkvæmdastjóri Búseta á Norðurlandi, í samtali við Fréttablaðið .

Þar segist Benedikt telja fulla ástæðu til að kæra Íbúðalánasjóð til umboðsmanns Alþingis og Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna starfsemi leigufélagsins Kletts. Hefur hann látið útbúa lögfræðiálit vegna þessa og mun leggja kæru fyrir stjórnarfund á næstunni.

Búseti á Norðurlandi telur Íbúðalánasjóð skorta lagaheimild til að reka leigufélag. Það sé einnig ekki í samræmi við góða viðskiptahætti að eiga og reka íbúðir í samkeppni við eigin viðskiptamenn. Bætt var við húsnæðislög árið 2012 ákvæði um að verkefni Íbúðalánasjóðs væru meðal annars að eiga leigufélag með íbúðarhúsnæði sem sjóðurinn hefur yfirtekið á nauðungarsölu samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð sem ráðherra setur. Sú reglugerð hefur hins vegar ekki enn verið sett.

Telja forsvarsmenn Búseta á Norðurlandi því að þarna sé um markaðsskekkjandi ráðstafanir að ræða og Íbúðalánasjóður sé í of nánum samskiptum við keppinauta á markaði.