Frumvarp velferðarráðherra, Eyglóar Harðardóttur, um endurskoðun á löggjöf um búsetufélög var flutt á Alþingi í dag. Frumvarpið í heild sinni má lesa hér .

Frumvarpi ráðherra er að sögn ætlað að auðvelda húsnæðissamvinnufélögum að starfa á Íslandi. Í því segir að mikilvægt sé að markmiðið með rekstri slíkra félaga sé að sem flestir geti búið við öryggi í húsnæðismálum og að jafnræði ríki meðal félagsmanna þeirra við kaup á búseturétti.

Í frumvarpinu er til dæmis lagt til að kveðið verði á um að óheimilt verði að greiða fé, sem arð eða hvers konar ígildi arðs, úr húsnæðissamvinnufélagi til þeirra sem að félaginu standa. Þess í stað er gert ráð fyrir að rekstrarafgangi verði varið til vaxtar og viðhalds félagsins, svo sem til niðurgreiðslu lána þess.

Einnig er lagt til að kveðið verði á um hvernig fara skuli með félagsmenn sem eru yngri en 18 ára. Víða erlendis tíðkast að foreldrar skrái börn sín í húsnæðissamvinnufélög þannig að þau eigi kost á að festa kaup á búseturétti síðar á ævinni.

Lagt er til að foreldrar geti skráð börn sín að því gefnu að þeir séu reiðubúnir að greiða inntökugjald og árlegt félagsgjald fyrir þau. Barn getur þó ekki átt rétt til kaupa á búseturétti fyrr en við 18 ára aldur og er það í samræmi við það sem tíðkast hefur.