Nicolas Maduro, forseti Venesúela, hefur lagt fyrir utanríkisráðuneyti sitt að fækka þeim starfsmönnum sem heimilt er að vinna í sendiráði Bandaríkjanna þar í landi. Bloomberg greinir frá málinu.

Þetta sagði forsetinn í ávarpi til þjóðar sinnar í ríkissjónvarpi landsins. Bætti hann því við að þeir starfsmenn sem eftir verða í sendiráðinu muni jafnframt þurfa að afla samþykkis stjórnvalda í Venesúela fyrir því að halda fundi innan ríkisins. Sagðist hann einnig hafa undir höndum gögn sem sanni að bandarísk stjórnvöld hafi reynt að vinna gegn hagsmunum landsins.

Efnahagur Venesúela er í molum og má segja að sósíalísk stefna stjórnvalda, sem viðhöfð hefur verið þar í landi undanfarin ár, hafi beðið skipbrot. Þannig er nánast orðið ómögulegt fyrir marga að sjá sér og sínum fyrir farborða og fást matvæli í mjög takmörkuðum mæli í landinu. Stjórnvöld þar í landi kenna hins vegar lækkandi olíuverði um ástandið, en landið reiðir sig að mestu á sölutekjur af olíu.

Banna Bush og Cheney

Samband stjórnvalda í Venesúela og í Bandaríkjunum hefur lengi verið stirt, og segir forsetinn að nú verði Bandaríkjamönnum meinað að koma inn í landið nema þeir hafi til þess vegabréfsáritun. Þá hefur hann bannað nokkrum bandarískum stjórnmálamönnum alfarið að stíga fæti inn í landið, en þeirra á meðal eru George W. Bush, fyrrum forseti Bandaríkjanna, og Dick Cheney, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna.

„Bandaríkin halda að þau eigi heiminn. Stjórnvöld þar í landi tjá sig um allt. Eitthvað gerist í Asíu, og talsmaður Bandaríkjanna kemur fram og talar gegn því. Hvað er það? Ætlum við að sætta okkur við heimsríkisstjórn?“ sagði forsetinn meðal annars.