Aðeins tveimur vikum fyrir þingkosningar í Bandaríkjunum, leitast George W. Bush Bandaríkjaforseti nú við að snúa athyglinni að auknum styrk efnahags Bandaríkjanna og draga þar með athyglina frá ástandinu í Írak, segir í frétt Financial Times.

Bush segir að kannanir sem bendi til að í það stefni að Repúblikanaflokkurinn missi meirihluta á þinginu gefi ekki rétta mynd og bendir á aukinn atvinnuvöxt og bætt launakjör því til stuðnings. Bush mun halda ræðu um efnahag þjóðarinnar á fimmtudaginn.

Bush sagði við fjölmiðla að efnahagurinn væri nú sterkur og að ríkisstjórnin hefði skýra áætlum um sigur í Íraksstríðinu. Hann sagði einnig að Demókrataflokkurinn hafi enga áætlun um hvernig ætti að leysa úr Íraksmálinu.

Kosningarstjórar Repúblikanaflokksins virðast telja að nægur tími sé fyrir hendi til að beina athygli fjölmiðla að efnahagnum. Bush gerði lítið úr gagnrýni sem segir að efnahagsástandið sé miðstéttarfólki í óhag og segir að laun hafi hækkað að meðaltali um 2,2% á síðasta ári. Demókratar hafa bent á að stöðnun hafi átt sér stað í miðlungsháum launum, en Bush leggur frekar áherslu á að 6,6 milljónir nýrra starfa hafi verið sköpuð síðan í ágúst 2003.