George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, og Hu Jintao, forseti Kína, funduðu í gær en forsetarnir eru báðir staddir á leiðtogafundi Asíu- og Kyrrahafsríkja, Apec, sem haldinn er í Líma í Perú.

Ræddu þeir um aðgerðir til að sporna gegn alþjóðlegu fjármálakreppunni en einnig kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu.

Breska ríkisútvarpið, BBC, segir frá þessu á vefsíðu sinni.

Bush og Hu Jintao sammæltust um það að reyna að efla aðgerðir og alþjóðlega samvinnu vegna erfiðrar stöðu í efnahagsmálum. Mikilvægt væri að endurskipuleggja stofnanir eins og Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og Alþjóðabankann.

Hu Jintao, forseti Kína, sagði að ástand efnahagsmála væri erfitt og að mikilvægt væri fyrir alla heimsbyggðina að hagkerfi Kína standi traustum fótum.

Á fundi Apec ríkjanna hvatti Bush ríkin til þess að staðfesta viljayfirlýsingu G20 ríkjanna sem samþykkt var á fundi tuttugu ríkustu ríkja heims sem haldinn var í Washington um síðustu helgi.

Fundurinn í Líma er sá síðasti sem Bush tekur þátt í, á alþjóðavettvangi, sem forseti Bandaríkjanna.