George W. Bush, Bandaríkjaforseti, ætlar sér að þrýsta á Evrópuríki í þeirri von að leggja frekari hömlur á fjárhagslegan stuðning við Íran.

Munu aðgerðirnar sérstaklega beinast gegn Melli bankanum sem er stærsti banki Írans. Fréttavefur Financial Times greinir frá þessu.

Bush mun halda til Evrópu í dag. Mun hann á ferð sinni hitta helstu leiðtoga Evrópu á sameiginlegum fundi ESB og Bandaríkjanna, sem haldinn verður í Slóveníu.

Evrópusambandið hefur verið svifaseinna en Bandaríkjamenn vonuðust eftir í þvingunaraðgerðum gegn Íran.

Javier Solana, yfirmaður utanríkismála hjá ESB, mun brátt halda til Teheran í Íran. Vonast hann til að geta sannfært Írani til að láta af kjarnorkuáætlunum sínum.  Íran heldur því þó fram að kjarnorkuáætlun þeirra sé fullkomlega friðsamleg.

Sú spenna sem ríkir gagnvart Íran kann að vera ein ástæða þeirra olíuverðhækkana sem gert hafa vart við sig að undanförnu.