George Bush, Bandaríkjaforseti, mun í kvöld flytja sjónvarpsávarp til að auka stuðning almennings við umdeilda 700 milljarða dala björgunaráætlun ríkisstjórnar sinnar, sem ætlað er að koma stöðugleika á fjármálamarkaði vestanhafs.

Skoðanakannanir sýna að meirihluti almennings er á móti aðgerðunum. Talsmaður Bush segir forsetann ætla að skýra fyrir almenningi hvernig uppgangur á markaði hefur áhrif á heimili landsins.

Los Angeles Times birti í dag niðurstöður skoðanakönnunar sem sýnir að 55% Bandaríkjamanna eru mótfallnir því að ríkisvaldið styðji við bakið á fjármálafyrirtækjum sem riða til falls. CNN birti einnig niðurstöður slíkrar könnunar, sem sýnir að 65% Bandaríkjamanna telja að björgunaraðgerðir yrðu ósanngjarnar gagnvart skattgreiðendum.

Engu að síður sögðust 88% aðspurðra í könnun CNN vera áhyggjufullir eða hræddir vegna ólgunnar á Wall Street.

Guardian greindi frá.