George Bush, Bandaríkjaforseti, gerði tilraun til þess í gær að auka traust á bandaríska hagkerfinu. Bush hélt ræðu í Economic Club í New York í gær, og sagði að þrátt fyrir að hægst hafi á vexti, séu stoðir hagkerfisins ennþá styrkar. BBC greinir frá þessu.

Bush sagði bandaríska hagkerfið augljóslega vera að ganga í gegnum erfiða tíma, og að seðlabankinn muni beita allri sinni sérfræðikunnáttu og þekkingu til að ná tökum á ástandinu.

Seðlabanki Bandaríkjanna hefur lækkað vexti hratt á síðustu vikum og mánuðum, og búist er við frekar vaxtalækkun í næstu viku.

Húsnæðismarkaðurinn í frjálsu falli

Húsnæðisverð í Bandaríkjunum hefur fallið á síðustu mánuðum, auk þess sem gjaldþrot og fjárnám hafa færst í aukana. Bush lýsti yfir áhyggjum vegna áhrifum lánsfjárþurrðar fjármálastofanan á hinn venjulega Bandaríkjamann: „Vinnusamir Bandaríkjamenn hafa nú áhyggjur af framfærslu fjölskyldna sinna, “ sagði forsetinn.