Ráðamenn í Bandaríkjunum og Japan hafa heitið aðgerðum vegna hækkandi olíu- og matvælaverðs. Munu þeir málaflokkar fá mikið vægi á fundi G8 ríkjanna.

Yasuo Fukuda, forsætisráðherra Japans hefur sagt að aðgerða sé þörf  þar sem vandinn hafi neikvæð áhrif á efnahagskerfi heimsins.

Átti forsætisráðherrann fund með George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, en ríkin eru að stilla saman strengi í tilefni fundar G8 ríkjanna í Japan.

Bush hefur sagt að hátt olíuverð sé ástæða þess að hagvöxtur hafi minnkað í Bandaríkjunum.

Fréttavefur BBC greinir frá þessu.

Sagði Bush að vandinn væri m.a. sá að Bandaríkin þurfi að reiða sig á olíu frá öðrum ríkjum. Hann hafi reynt að fá Bandaríkjaþing til þess að styrkja frekari olíuleit innan Bandaríkjanna.

G8 ríkin, helstu iðnríki heims, samanstanda af Bretlandi, Kanada, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu, Japan, Rússlandi og Bandaríkjunum.

Auk þeirra munu fulltrúar fimmtán annara ríkja mæta á G8 fundinn. Þar á meðal Fulltrúar Kína og Brasilíu.