George Bush, fráfarandi forseti Bandaríkjanna, hefur sagt að stjórn sín muni ekki biðja þingið um að losa þá 350 milljarða dollara sem eftir eru af 700 milljarða dollara björgunarpakkanum.

Bloomberg hefur þetta eftir heimildamönnum sínum í Hvíta húsinu.

Stjórn Bush mun láta af völdum innan 10 vikna. Sé beðið með að nýta afgang björgunarpakkans mun stjórn Barack Obama þurfa að fara fram á slíkt.

Fulltrúar repúblikana í bankanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings hafa sagt að þessi ákvörðun Bush sé rétt skref. Skattgreiðendur hafi rétt á að sjá hvert fyrri 350 milljarðarnir fara áður en öðru eins sé ráðstafað.

Fjármálaráðuneytið hefur þegar nýtt 290 milljarða af þeim 350 sem því hefur verið úthlutað til inngripa á fjármálamarkaði. Bandaríska ríkið hefur þegar fjárfest í stórum bandarískum bönkum fyrir 125 milljarða dollara, og fyrirhugar að kaupa forgangshlutabréf í smærri fjármálafyrirtækjum fyrir aðra eins upphæð.

Henry Paulson hefur verið gagnrýndur af aðilum löggjafarsamkoma fyrir að dæla fjármagni beint inn í fjármálastofnanir, í stað þess að kaupa af þeim eitruð veð eins og upphaflega stóð til.