George Bush, forseti Bandaríkjanna, leggur mikla áherslu á að Bandaríkjamenn og Evrópubúar þurfi að standa saman í Afganistan og koma í veg fyrir að landið verði griðastaður hryðjuverkamanna. Þetta kom fram í ræðu hans í höfuðstöðvum Efnahags- og framfararstofnunarinnar (OECD) í París í dag.

George Bush er nú í kveðjuferðalagi í Evrópu en sem kunnugt er lætur hann af embætti í janúar á næsta ári. Embættismenn ríkisstjórnar hans höfðu gefið það út að ræða hans hjá OECD yrði ein af lykilræðum ferðalagsins. Ein af megináherslunum Bush á fundum hans með ráðamönnum álfunnar er að Evrópuríkin leggi meira fé til uppbyggingarinnar í Afganistan og fjölgi í herliði sínu í landinu. Í ræðu sinni þakkaði hann Nicolas Sarkozy, forseta Frakka, fyrir að heita að gera hið síðarnefnda.

Í ræðu sinni sagði forsetinn að vera sannfærður um að hægt verði að semja um frið botn Miðjarðarhafs á þessu ári. En forsetinn hefur lagt mikla áherslu á að beita sér í friðarferlinu þar um slóðir að undanförnu.

Þrátt fyrir að utanríkisstefna Bush-stjórnarinnar hafi verið umdeild meðal sumra stjórnmálamanna í Evrópu sagðist forsetinn sannfærður um að Atlantshafstengslin séu traust við lok valdatíðar hans. Hann sagði jafnframt að hann sæi fram á “nýtt tímabil samstöðu ríkja beggja vegna Atlantsála” og nefndi þjóðarleiðtoga á borð við Silvio Berlusconi, Gordon Brown, Angelu Merkel í því samhengi. Eflaust eiga stjórnmálaskýrendur eftir að lesa mikið í þá upptalningu en sem kunnugt er tóku Berlusconi, Merel og Sarkozy við stjórnartaumum í heimalöndum sínu af vinstri mönnum.